Edda og Óskar sunnudaginn 28. febrúar

by Anonymouson UncategorizedFebruary 10thhas no comments yet!

Eddan 2016, uppskeruhátíð Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA), verður haldin hátíðleg sunnudagskvöldið 28. febrúar á hótel Hilton Reykjavík Nordica. Þetta kvöld verður mikil veisla fyrir kvikmyndaunnendur því á eftir Eddu kemur Óskar en Óskarsverðlaunin eru afhent sama kvöld.

Frestur til að skila inn verkum í Edduna rann út í byrjun janúar og samkeppnin um þessa eftirsóttu styttu er síst minni núna en undanfarin ár. Þegar upp var staðið höfðu framleiðendur sent inn alls 106 verk í keppnina miðað við 108 verk í fyrra. Gjaldgeng voru verk sem voru frumsýnd opinberlega á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. desember 2015.

Fjórar forvalsnefndir eru nú að störfum við að horfa á öll innsend verk og velja þau sem tilnefnd verða í öllum 24 verðlaunaflokkum Eddunnar. Tilkynnt verður um tilnefningar til Eddunnar 2016 á blaðamannafundi í Bíó Paradís kl. 13, miðvikudaginn 10. febrúar. Í framhaldi hefst kosning Akademíumeðlima á milli tilnefndra verka.

Athugið að aðeins þeir Akademíumeðlimir sem búnir eru að greiða félagsgjöldin fyrir árið 2016 eru á kjörskrá Eddunnar og fá sendan kjörseðil. Frestur til að greiða félagsgjöldin og komast inn á kjörskrána rennur út á miðnætti 9. febrúar.