Starfsreglur Eddunnar

1. Innsendingar

1.1. Stefnt skal að því að halda Edduverðlaunahátíðina í febrúar ár hvert og skal verðlaunaafhendingin bera ártal þess árs sem hún er haldin.

1.2. Innsend verk skulu hafa verið frumsýnd opinberlega á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember árið á undan hátíðinni. Verk skulu hafa verið frumsýnd í íslensku kvikmyndahúsi eða á íslenskri kvikmyndahátíð þar sem almenningi hefur gefist kostur á að mæta og/eða á miðli með umtalsverða dreifingu á Íslandi.

Meirihluti verks sem skiptist í fleiri en eina einingu skal hafa verið sýnt á timabilinu til að vera gjaldgeng.

Verkin verða að hafa verið frumsýnd á Íslandi á fyrrnefndu tímabili en að auki mega ekki hafa liðið meira en tvö ár frá fyrsta frumsýningardegi, hafi verkið fyrst verið frumsýnt erlendis.

1.3. Verk sem til greina koma skulu vera að meirihluta framleidd af íslenskum fyrirtækjum eða uppfylla skilyrði þeirra samframleiðslusamninga sem Ísland er aðili að.

Þó er heimilt að senda nöfn Íslendinga sem taka þátt í myndum annarra þjóða, inn í fagverðlaun Eddu. Nöfn erlendra ríkisborgara, sem taka þátt í íslenskum myndum skv. skilgreiningunni að ofan, er einnig heimilt að senda inn til Edduverðlauna.

1.4. Undir lok hvers árs auglýsir stjórn ÍKSA eftir myndum sem til greina koma í neðantalda flokka. Skal skilafrestur vera tilgreindur í auglýsingunni sem og dagsetning þar sem tilnefningar verða gerðar opinberar.

Auglýsinguna skal birta á vef ÍKSA (www.eddan.is) en einnig skal óskað eftir birtingu á öðrum vefum kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi og í öðrum miðlum eftir því sem stjórn ÍKSA telur ástæðu og efni til.

Stjórn ÍKSA ásamt Fagráði Eddunnar ákvarðar upphæð innsendingargjalda hverju sinni. Til að verk komi til greina verður ávallt að greiða grunngjald fyrir innsent verk, jafnvel þó aðeins sé verið að senda verkið inn í fagverðlaun.

1.5. Aðeins er hægt að tilnefna sama verk í einn aðalflokk. Þannig telst t.d. sérstök viðhafnarúgáfa sjónvarpsþáttar til sjónvarpsþáttaraðarinnar sjálfrar en ekki sem sjálfstætt verk.

Eina undantekning þessarar reglu er 1. flokkur, Barna- og unglingaefni ársins. Heimilt er að senda sama verk inn í Barna- og unglingaefni ársins og annan flokk að auki, svo sem Kvikmynd ársins eða Leikið sjónvarpsefni ársins, án aukakostnaðar.

1.6. Verðlaunaflokkar Edduverðlaunanna.

Athugið að í sumum tilvikum geta verk átt heima í fleiri en einum verðlaunaflokki en sbr. reglu 1.5 er aðeins hægt að senda sama verk inn í einn aðalflokk. Það er í öllum tilvikum framleiðenda sjálfra að skilgreina verk sín og ákvarða inn í hvaða flokk þeir kjósa að senda þau.

Aðalflokkar:

1. BARNA- OG UNGLINGAEFNI ÁRSINS.
Hvort sem er í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi.
2. FRÉTTA- EÐA VIÐTALSÞÁTTUR ÁRSINS.
Í sjónvarpi.
3. HEIMILDAMYND ÁRSINS.
Heimildamyndir og heimildamyndaþættir ásamt leiknum heimildamyndum og leiknum heimildamyndaþáttum, hvort sem er í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi.
4. ÍÞRÓTTAEFNI ÁRSINS.
Þættir og eða útsendingar um íþróttaiðkun eða íþróttaviðburði.
5. KVIKMYND ÁRSINS.
Kvikmynd í fullri lengd, sýnd í kvikmyndahúsi.
6. LEIKIÐ SJÓNVARPSEFNI ÁRSINS.
Sjónvarpsmyndir, þáttaraðir eða stakir þættir.
7. MANNLÍFSÞÁTTUR ÁRSINS.
Þættir byggðir á viðtölum eða um daglegt líf.
8. MENNINGARÞÁTTUR ÁRSINS.
Í sjónvarpi.
9. SKEMMTIÞÁTTUR ÁRSINS.
Í sjónvarpi.
10. STUTTMYND ÁRSINS.
Allt að 60 mínútur. Sýnd opinberlega a.m.k. einu sinni.

Flokkar fagverðlauna:

11. BRELLUR ÁRSINS.
Brellur/VFX/hreyfimyndagrafík, bæði hefðbundnar brellur og stafrænar. Framleiðendur eru hvattir til að senda inn sýnishorn um það hvernig brellurnar eru búnar til, þ.e. fyrir og eftir myndbrot.
12. BÚNINGAR ÁRSINS.
13. GERVI ÁRSINS.
Förðun, hár og/eða gervi.
14. HANDRIT ÁRSINS.
15. HLJÓÐ ÁRSINS.
Fyrst og fremst hljóðhönnun/hljóðvinnsla.
16. KLIPPING ÁRSINS.
17. KVIKMYNDATAKA ÁRSINS.
18. LEIKARI ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI.
19. LEIKARI ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI.
20. LEIKKONA ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI.
21. LEIKKONA ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI.
22. LEIKMYND ÁRSINS.
23. LEIKSTJÓRI ÁRSINS.
24. SJÓNVARPSMAÐUR ÁRSINS.
25. TÓNLIST ÁRSINS.
26. UPPTÖKU- EÐA ÚTSENDINGASTJÓRI ÁRSINS

Önnur verðlaun:

27. HEIÐURSVERÐLAUN.
Stjórn ÍKSA velur heiðursverðlaunahafa hverju sinni.

28. SJÓNVARPSEFNI ÁRSINS.
Til greina kemur allt efni sem sent er inn í barna- og unglingaefni (og frumsýnt í sjónvarpi), frétta- eða viðtalsþáttur, leikið sjónvarpsefni, menningarþáttur, mannlífsþáttur eða skemmtiþáttur. Almenningur kýs.

2. Valnefndir

2.1. Valnefndir skoða allt innsent efni og velja þau verk sem eru tilnefnd til Edduverðlaunanna. Undirstöðuvalnefndirnar eru fjórar en valnefnd sjónvarpsverðlauna skiptist í þrjár minni nefndir og valnefnd fagverðlauna skiptist niður í sex minni nefndir. Hver valnefnd vinnur saman. Fjöldi tilnefninga í hvern flokk skulu miðast við fjölda innsendinga. Ef innsendingar eru 15 eða fleiri í flokk skulu 5 verk tilnefnd. Ef þau eru færri en 15 skulu 3 verk tilnefnd.

2.2. Valnefndirnar eru fjórar, valnefnd sjónvarpsefnis skiptist niður í þrjár nefndir og valnefnd fagverðlauna skiptast niður í sex minni nefndir:

    1. VALNEFND UM LEIKIÐ EFNI. Skoðar eftirfarandi flokka:
      Barna- og unglingaefni ársins; Kvikmynd ársins; Leikari ársins í aðalhlutverki; Leikari ársins í aukahlutverki; Leikið sjónvarpsefni ársins; Leikkona ársins í aðalhlutverki; Leikkona ársins í aukahlutverki og Stuttmynd ársins
    2.  VALNEFND UM SJÓNVARPSEFNI. Skoðar eftirfarandi flokka:
      Frétta eða viðtalsþáttur ársins; Menningarþáttur ársins; Mannlífsþáttur ársins, Skemmtiþáttur ársins og Sjónvarpsmaður ársins.

      1. Frétta eða viðtalsþáttur ársins & Barna- og unglingaefni ársins
      2. Menningarþáttur ársins; Mannlífsþáttur ársins
      3. Skemmtiþáttur ársins og Sjónvarpsmaður ársins
    3. VALNEFND UM HEIMILDAMYNDIR. Skoðar einn flokk:
      Heimildamynd ársins
    4. VALNEFND FAGVERÐLAUNA. Skoðar eftirfarandi flokka:
      Brellur ársins; Búningar ársins; Gervi ársins; Handrit ársins; Hljóð ársins; Klipping ársins; Kvikmyndataka ársins; Leikmynd ársins; Leikstjóri ársins og Tónlist ársins.

      1. Búningar og gervi:
      2. Brellur og leikmynd:
      3. Klipping og kvikmyndataka:
      4. Handrit og Leikstjórn:
      5. Hljóð og tónlist:
      6. Upptöku- eða Útsendingarstjórn og Íþróttaefni:

2.3. Minnst fimm aðilar skulu starfa í hverri valnefnd fyrir leikið efni og sjónvarpsefni. Allt að fimm aðilar skulu starfa í hverri valnefnd fyrir heimildarmyndir. Þrír aðilar skulu starfa í hverri fagverðlaunanefnd. Stjórn ÍKSA mun gæta þess að hafa kynjahlutföll sem jöfnust. Allir valnefndafulltrúar skulu vera meðlimir ÍKSA og leitast er eftir fulltrúum sem hafa sérþekkingu hvað varðar menntun og/eða starfa á sviði kvikmynda og sjónvarps.

Skilyrði þess að starfa í valnefnd er að viðkomandi sé ekki með innsent verk í þeim flokki sem nefndin er að skoða, né má einstaklingurinn hafa persónuleg tengsl við þá sem eru tilnefndir. Valnefndarmenn vinna eftir vinnureglum valnefnda sem stjórn ÍKSA samþykkir. Sérhver valnefndarmaður skal staðfesta með sannarlegum hætti að viðkomandi uppfylli skilyrði til að starfa í valnefnd samkvæmt framansögðu og að hann muni starfa eftir vinnureglum ÍKSA.

Nöfn allra valnefndarmanna skulu birt á vef ÍKSA (www.eddan.is) eftir að Eddan er um garð gengin, án þess þó að tiltaka hver sat í hvaða valnefnd.

3. Kjörskrá

3.1. Á kjörskrá vegna Edduverðlaunanna hverju sinni eru aðeins þeir meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar sem hafa greitt félagsgjöld ÍKSA það árið.

Rétt að aðild að Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni hafa þeir er sannanlega hafa unnið að tveimur kvikmynda- og/eða sjónvarpsverkefnum í einum eftirfarandi flokka. Athugið að með kvikmynda- eða sjónvarpsverkefnum er átt við verk sem hafa verið sýnd í íslensku kvikmyndahúsi eða á íslenskri kvikmyndahátíð þar sem almenningi hefur gefist kostur á að mæta (þ.e. sýningin hefur verið í auglýstri dagskrá kvikmyndahússins / hátíðarinnar) og/eða á viðurkenndri íslenskri sjónvarpsstöð með umtalsverða dreifingu.

Aðstoðarleikstjóri
Aðstoðartökumaður
Áhættuleikari
Brellumeistari
Búningahönnuður
Framkvæmdastjóri
Framleiðandi
Förðunarmeistari
Grafískur hönnuður
Gripill
Handritshöfundur
Hljóðhönnuður
Hljóðmaður
Klippari
Kvikmyndatökumaður
Leikari í aðal- og/eða aukahlutverki
Leikmunavörður
Leikmyndahönnuður
Leikstjóri
Ljósahönnuður
Myndblandari
Skrifta
Sviðsmaður
Tónlistarhöfundur
Tæknistjóri
Upptökustjóri

3.2. Kjörskrá Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar skal birta opinberlega a.m.k. tveimur vikum fyrir verðlaunaafhendingu, eftir nánari ákvörðun stjórnar ÍKSA og skal sú kjörskrá gilda fyrir kjör meðlima í ÍKSA. Þeir sem ekki eru á kjörskrá við birtingu hennar, eiga ekki kosningarétt við netkosningu meðlima ÍKSA. Hægt er að nálgast kjörskrána á heimsíðu ÍKSA á netinu (www.eddan.is). Kærur, er varða kjörskrá ef einhverjar eru, skulu berast ÍKSA ásamt skriflegum rökstuðningi. Stjórn ÍKSA fjallar um kærur sem kunna að berast.

4. Kosning

4.1. Stjórn ÍKSA skipar sérstaka kjörnefnd til að hafa yfirumsjón með kosningu og sjá um talningu atkvæða. Engin meðlimur kjörnefndar má vera tilnefndur til Eddu-verðlaunanna né hafa komið á nokkurn hátt að gerð þeirra verka sem kosið er um.

4.2. Kosning skal vera rafræn og fara fram með þeim hætti að þeir sem eru á kjörskrá ÍKSA fá sendan kjörseðil í tölvupósti. Skal þess gætt að hver meðlimur geti aðeins kosið einu sinni.

Þeir sem ekki hafa aðgang að rafrænum pósti þurfa að óska sérstaklega eftir því að fá að kjósa utan kjörfundar og mun stjórn ÍKSA sjá um nánari útfærslu.

Kærufrestur vegna niðurstöðu kosninga er ein vika frá opinberun niðurstaðna. Kærur skulu berast stjórn ÍKSA. Eftir það er kjörgögnum eytt en niðurstöður geymdar í vörslu ÍKSA.

4.3. Atkvæði valnefnda (þ.e. niðurstöður úr starfi valnefnda, sjá grein 2) gilda 50% á móti atkvæðum meðlima ÍKSA í endanlegri kosningu á milli tilnefndra verka um Edduverðlaunin.

Talningin atkvæða fer þannig fram: hver valnefndarmaður gefum verkum stig, 2, 4, 6, 8 eða 10. Stig fyrir hvert verk eru lögð saman og þau þrjú eða fimm verk sem fá flest stig eru tilnefnd. Ef tvö eða fleiri verk eru jöfn að stigum er það tilnefnt sem hefur fleiri 10 stig, fleiri 8 stig ef fjöldi 10 stiga er jafn og svo framvegis. Ef einkunnagjöf er nákvæmlega eins ræður hlutkesti.

Þegar akademían hefur kosið er reiknað hlutfall atkvæða hvers verks af heildaratkvæðum og hlutfall stiga hvers verks hjá valnefndum af heildarstigum þannig að summa allra hlutfalla er 100%. Síðan er reiknað meðaltal af hlutfalli akademíunnar og valnefnda, semsagt hlutfall valnefnda / 2 + hlutfall akademíu / 2. Verkið sem er með hæsta meðaltalið er útnefnt. Ef tvö verk eru með jafnt hlutfall ræður kosning akademíunnar, það er það verk sem er með betri kosningu í adakemíunni er útnefnt. Ef jafnt er bæði hjá valnefnd og adademíunni ráða fleiri 10 stig hjá valnefndum og svo framvegis. Ef enn er jafnt ræður hlutkesti.

4.4. Auk þess að kjósa um ofangreinda flokka stendur Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían fyrir kosningu á framlagi Íslands til Óskarsverðlaunanna úr öllum framleiddum bíómyndum samkvæmt reglum The Academy of Motion Picture Arts and Sciences Í Bandaríkjunum. Sú atkvæðagreiðsla skal fara fram samkvæmt ákvörðun stjórnar ÍKSA.

5. Úrslit

5.1. Úrslit atkvæðagreiðslunnar skulu kunngjörð á verðlaunahátíðinni sem halda skal eigi síðar en tveim vikum eftir lok kjördags.

6. Ágreiningur

6.1. Rísi upp ágreiningur um framkvæmd eða fyrirkomulag kosninganna skal stjórn ÍKSA hafa úrskurðarvald í öllum deilumálum.