Eldfjall er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012
•Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið Eldfjall, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012 sem besta erlenda myndin.
Kvikmyndin Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá fjölskyldunni og heimilinu og þarf nú að takast á við nýtt hlutverk í lífinu. Eldfjall er þroskasaga manns sem þarf að takast á við val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð.
Eldfjall var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún keppti í tveimur flokkum: Director‘s Fortnight og Camera D‘Or. Myndin hefur einnig verið sýnd á fleiri alþjóðlegum kvikmyndahátíðum eins og í Karlovy Vary og nú síðast fyrir stuttu í Toronto í Kanada. Eldfjall kemur til almennra sýninga á Íslandi þann 30. september næstkomandi.
Leikstjóri og handritshöfundur Eldfjalls er Rúnar Rúnarsson og myndin er framleidd af Skúla Malmquist og Þóri Snæ Sigurjónssyni hjá Zik-Zak.
Bandaríska kvikmyndaakademían hóf að veita Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli árið 1947. Hverju landi er boðið að senda inn eina kvikmynd sem framleidd hefur verið á tilteknu tólf mánaða tímabili. Innsendar kvikmyndir fá sérstaka sýningu þar sem nefnd gefur hverri mynd einkunn. Þær fimm myndir sem fá hæstu einkunn eru tilnefndar til Óskarsverðlauna í flokknum besta kvikmyndin á erlendu tungumáli.
Fyrsta framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna var kvikmyndin Land og synir árið 1981. Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu, ein í fullri lengd og ein stuttmynd. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson var tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin árið 2006.