Stuttmyndin Naglinn úr Eddunni
•Samþykkt stjórnar Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar
Spurningar hafa vaknað um það hvort stuttmyndin Naglinn, sem send var inn í Edduna í ár, hafi verið gjaldgeng til innsendingar.
Þegar stjórn ÍKSA fór yfir innsend verk í Edduna í byrjun janúar, kom myndin sérstaklega til umræðu. Sett voru spurningarmerki við gjaldgengi verksins með tilliti til þess hvenær myndin var framleidd og hvort að hún hefði verið opinberlega frumsýnd í kvikmyndahúsi áður en hún var sýnd á RÚV síðasta sumar, eins og sagði á innsendingargögnum.
Frekari upplýsinga var aflað frá framleiðanda myndarinnar og í kjölfarið var verkið sett í hendur valnefndar. Þegar niðurstöður hennar lágu fyrir, reyndist þetta verk vera eitt af þeim fimm sem tilnefnt var til verðlauna.
Nýverið var athygli stjórnar ÍKSA vakin á því að myndin hefði í reynd verið opinberlega frumsýnd í kvikmyndahúsi árið 2008 og því gæti sýning hennar á RÚV ekki talist frumsýning samkvæmt reglum Eddunnar.
Stjórn ÍKSA leitaði enn á ný eftir frekari upplýsingum um málið og hefur í kjölfarið samþykkt eftirfarandi:
Í ljósi þess að kvikmyndin Naglinn var án alls vafa frumsýnd á auglýstri, opinberri sýningu á Reykjavík International Film Festival árið 2008, er ljóst að hún var ekki gjaldgeng í Edduna 2012, enda segir í fyrstu málsgrein í starfsreglum Eddunnar:
„Tilnefndar myndir (svo og verk einstaklinga) skulu hafa verið frumsýndar opinberlega í kvikmyndahúsi á tímabilinu 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2011 og/eða á íslenskri sjónvarpsstöð á sama tímabili.“
Stjórn ÍKSA hefur því ákveðið að fella myndina úr Eddunni 2012 og falla öll atkvæði greidd henni niður. Formlega teljast því aðeins fjórar stuttmyndir hafa hlotið tilnefningu til Edduverðlaunanna 2012.
Stjórnin harmar að ofangreindur misskilningur varðandi gjaldgengi Naglans hafi átt sér stað, en sér sig knúna til að taka þessa ákvörðun í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og með hliðsjón af grein 6 í starfsreglum ÍKSA og að höfðu samráði við kjörstjórn Eddunnar 2012.
Í kjölfarið hefur stjórn ákveðið að endurskoða starfsreglur Eddunnar til að fyrirbyggja að slíkur misskilningur geti komið upp í framtíðinni.
Reykjavík, 16. febrúar 2012
Stjórn ÍKSA