Djúpið í Óskarinn
•Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar völdu kvikmyndina Djúpið sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Djúpið mun því keppa fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.
Djúpið hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fimm íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2011 til 30. september 2012.
Djúpið byggir á samnefndu leikriti Jóns Atla Jónassonar og fjallar um þrekvirki Guðlaugs Friðþjófssonar, eina eftirlifandi skipverjans á Helliseynni sem sökk skammt frá Vestmannaeyjum árið 1984. Baltasar Kormákur leikstýrir Djúpinu og skrifar handritið ásamt Jóni Atla en Baltasar framleiðir jafnframt myndina ásamt Agnesi Johansen.
Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.